5.3.2011 | 09:31
Ísrelsferð, ferðalag með kærleikan að leiðarljósi
Þessi frásögn fjallar um ferð okkar til Miðausturlanda í nóvember 2001. Við fórum í þessa ferð með 28 ljós-kærleiks og kraftberum, shamballa meisturum og heilurum. Aðal driffjöðrin var Hari Baba Melchizedek/John Armitage stofnandi Shamballa MD heilunar. Ég skrifaði frásögnina fyrst í fjölda bréfa sem ég sendi til shamballa póstlistans á veraldarvefnum og ætla að halda mig við það form í þessari íslensku útgáfu.
Annan Desember 2001
Kæra fjölskylda.
Það er sannleikur að allar mikilfenglegar breytingar á plánetunni, alheiminum eða sköpuninni hefjast innra með okkur sjálfum.
Áður en við hófum ferð okkar til miðausturlanda hafði sú hugsun flogið í gegn að við myndum taka þátt í einhverri stórkostlegri þjónustu við plánetuna og það er raunar satt en hvernig það átti sér stað var gjörólíkt okkur villtustu draumum.
Hverjir voru þá draumar okkar?
Ég á erfitt með að segja það. Ég vissi bara að ég varð að fara og ég hefði ekki getað farið þangað með stórkostlegri hóp. Ég vissi líka að þetta var ekki í fyrsta sinn sem ég tók þátt í hópverkefni til að auka kærleikan og ljósið á plánetu í þessari Sköpun og hversu dásamlegt það er að taka þátt í slíkri þjónustu. Þrátt fyrir allt það sem við höfum lært á síðustu árum um að friðurinn hefjist í eigin hjarta þá virðumst við vera föst í þeirri tálsýn að það sé einhver meiri kraftur utan við okkur og við eigum það til að láta frá okkur, okkar eigin sköpunarmátt.
Tveim mánuðum fyrir ferðina fékk ég sálnalestur hjá Björk. Hún sá mig leiða hóp þræla frá Ísrael til fjallanna í Jórdaníu þar sem við hófum byggingu hinnar frægu borgar Petru. Þetta var mjög há þróað andlegt samfélag sem átti síðan eftir að fölna. Við höfum öll skynjað þennan biorytma í lífi okkar, er það ekki? Samskonar bylgjur virðast leiða allt í sköpuninni. Við höfum séð hátind samfélaga eins og forn Egyptaland, Petru, Mesopotamíu, Atlantis o.s.frv. og við höfum séð fall þessara samfélaga.
Ég hlakkaði mikið til ferðar minnar til Petru og þokukenndar hugsanir um að koma mín þangað myndi endurnýja orkuna sem við höfðum byggt þar upp fyrir svo löngu síðan. Jæja, þetta var mín tálsýn og ég mun koma aftur að þessu síðar er ég segi ykkur frá ferðinni til Petru.
Með þessa innri þörf til að fara gat ekkert komið í veg fyrir eða breyta ákvörðun okkar um ferðina. Það kom þó ekki í veg fyrir að efi um réttmæti ferðarinnar á þessum tímapunkti kæmi ekki upp í hugann endrum og eins. Ástandið í heiminum var afar viðkvæmt og mikill órói var í mið austurlöndum þar sem menn létu lífið nær daglega. Vorum við ekki bara að koma fjölskyldu okkar í vanda með því að fylgja hjarta okkar og setja sjálf okkur í hættu. Spádómar Ramtha um að kjarnorkusprengja myndi springa í Ísrael í lok nóvember ýtti líka við innri ótta. Við snerum þó alltaf tilbaka til hjartans og þessarar djúpu innri vitneskju um að allt myndi fara vel. Okkar einlægi ásetningur var að koma heil heim.
Það er okkur þvílík gleði og unun að lifa hér á jörðu á þessum tímum að ekkert getur komið í veg fyrir að við stöldrum við mikið lengur. Fyrir utan það að "VIÐ SKÖPUM OKKAR EIGIN RAUNVERULEIKA" og ótti er ekki á stefnuskrá okkar, aðeins kærleikur.
Um 10 dögum áður en ferðin hófst fékk ég leiðbeiningar um að hreinsa líkamann með föstu. Því hóf ég léttföstu strax eftir að við komum heim frá Svíþjóð þar sem við heimsóttum dóttur okkar sem þar er við nám. Ég held að þetta hafi hjálpað mér mikið þann tíma sem við vorum í Palestínu. Annað sem undirbjó mig fyrir ferðina voru allar hugleiðslurnar á spjallrásinni allt haustið.
Það má segja að ævintýri okkar hafi hafist 8.nóvember þegar Lindamarie lenti á Íslandi en hún er shamballa meistari frá Bandaríkjunum. Við fórum upp í Heiðmörk sem er einn af uppáhaldsstöðum mínum í nágrenni Reykjavíkur. Vinir okkar úr Hofsjökli, ísfólkið slóst í för með okkur á þessum frostkalda en fagra degi.
Eftir vinnu næsta dag var haldið í Bláa lónið til að slaka á fyrir flugið og njóta hins heita vatns meðan stormurinn og regnið hreinsaði orkulíkama okkar.
Fluginu seinkaði vegna bilunar í einni af vélum Flugleiða. Meðan við biðum á vellinum tengdum við inn á atburðinn og skynjuðum að einhverjir utanaðkomandi kraftar voru að reyna að stöðva ferðina. Við hringdum í Hari og eftir að hann hafði enn einu sinni farið í gegnum alla pappírana varðandi ferð okkar fann hann enn eina villu í farseðli til Ísrael. Raunar reyndist það vera minn miði. Sem betur fer var þetta smávægileg villa sem auðvelt var að lagfæra. Við fengum fría drykki um borð í vélinni á leið yfir Atlantshaf, eftir alla biðina á flugvellinum.
Er við komum út úr vélinni í London urðum við meira en lítið hissa þegar við sáum ekki aðeins Viv og Mike heldur líka Hari sem hafði drifið sig út í bíl eftir símtalið og keyrt til London.
Þegar við komum heim til Viv og Mike tók Mike fram stjörnukíkinn. Það var heiðskír himinn og stjörnubjart. Þvílík upplifun að sjá pláneturnar og stjörnurnar á þann hátt og tengja við orku þeirra svona í upphafi ævintýraferðar okkar. Við sáum Satúrnus og hringina í kring, Júpiter, Orion, Nauts augað og mikið meira. Frábært!
Við vöknuðum seint næsta dag. Sól skein í heiði. Við hófum daginn á að skoða garðinn. Hann var undursamlegur, fullur af náttúruöndum og lífi. Ferð okkar til St Albin síðar um morguninn með Viv leiddi okkur að klaustrinu. Það fyrsta sem vakti athygli okkar þar var gríðarstórt, gamalt tré fyrir utan kirkjuna. Þegar ég lagði þriðja augað upp að trénu fann ég fyrir mikilli opnun. Það hélt einnig gríðarlega fallegri Gyðjuorku. Inni í kirkjunni fundum við fyrir orku píslardóms. Á hverri súlu kirkjunnar voru málaðar myndir af Jesú á krossinum. Bæði skreyting kirkjunnar og einnig byggingarlag hennar olli höftum í flæði kærleiksorkunnar frá Uppsprettunni. Við unnum í nokkrar mínútur við að lagfæra það og á eftir skynjuðum við gjörólíka orku flæða um þennan yndislega stað. Þegar ég lít nú tilbaka þá sé ég að þetta var í raun upphaf þess að tengja hin mismunandi trúarbrögð og kirkjudeildir saman í ferðinni.
Sunnudaginn ellefta nóvember söfnuðumst við saman í garðhýsinu og tónuðum 11:11. Við kölluðum inn mismunandi orku meistara og engla og kærleika frá Uppsprettunni til að flæða gegnum sköpunina. Skömmu síðar hringdi John í okkur. Upp hafði komið vandamál á flugvöllunum í París og Belgíu vegna gjaldþrots Sabena flugfélagsins. Við settumst niður og sendum hreinsandi orku til aðstæðna. Auðvitað leystust öll mál og um kvöldið vorum við öll samankomin á Hóteli við Heathrow flugvöll. Reyndar vantaði eina konu en hún kom fram síðar um kvöldið og hafði þá ferðast yfir hálfan hnöttinn til að vera með okkur.
Þetta kvöld reyndist afdrifaríkt fyrir suma en ég mun segja nánar frá því síðar. Við vorum öll spennt að hefja ferð okkar til að uppgötva hið óþekkta og kafa djúpt í kjarna vitundar okkar.
Við vöknuðum snemma morguninn eftir. Flugvélin átti að fara í loftið klukkan 8:30 og við þurftum að mæta a.m.k. 3 tímum fyrr. Það var syfjulegur 28 manna hópur sem tók rútu frá hótelinu. John hafði undirbúið okkur fyrir innritunina og lentu 3 einstaklingar í þriðja stigs yfirheyrslu um tilgang ferðarinnar og hvernig viðkomandi kynntist John. Fyrir okkur hin var þetta bara löng bið og þessar venjulegu spurningar sem allir farþegar þurfa að svara. Lindamarie hafði framkvæmt leikfimisæfingar kvöldið áður er hún gekk ofan af palli á hótelinu og var nú rúllað út að vél í hjólastól, ófær um að stíga í fótinn.
Flugið var viðburðarsnautt og lentum við heil á húfi í Ovda sem staðsettur er í miðri Negev eyðimörkinni. Eftir langa dvöl í biðröð vegna vegabréfaskoðunar gátum við loks sest upp í rútu og haldið til Eilat.
Sólin málaði himinninn dökkrauðan og appelsínugulan er hún seig niður fyrir sjóndeildarhringinn. Þetta var fegursta sólsetur ferðarinnar.
Anna leiðsögumaður beið okkar á Holiday inn Express hótelinu í Eilat og byrjaði á því að safna saman öllum vegabréfunum svo hægt væri að fá áritun til Egyptalands.
Hótelið okkar var huggulegt, nýlegt, tveggja hæða hús með sundlaug.
Hún var heldur köld til að synda í enda var vetur og lofthitinn aðeins 16-25°C sem er passlegt fyrir Íslendinginn sem þolir illa of mikinn hita.
Við fórum í stuttan göngutúr fyrir svefninn til að kynnast nánasta umhverfi.
Það var stutt niður á ströndina sem einkenndist af stórum, nýlega byggðum hótelum.
13.nóvember.
Strax eftir morgunverð settumst við niður á sundlaugarbarminn og nutum sólarinnar. Það var notalegt og góð tilbreyting frá kuldanum heima.
Þennan morgunn leiddi John hugleiðslu með Metatron auk þess sem hann skýrði frá dagskrá næstu tveggja vikna. Hann kenndi okkur einnig nokkur notadrjúg orð á Hebresku. Hér eru nokkur þeirra skráð eins og þau eru borin fram á íslensku.
Shalom (halló), Bokertof (góðan daginn), Toda (Takk), Toda raba (takk kærlega), Raga (bíddu), kama (hversu mikið).
Ég skýrði hópnum frá hinu nýja ljóslíkama úða og að öllum væri frjálst að nýta hann á næstu vikum. Reyndar varð það einskonar siður að ganga eftir ganginum í rútunni og úða á báða bóga inn í orkusvið farþeganna í upphafi dags með áruhreinsunar og ljóslíkama úðunum.
Róberta sagði okkur frá möntru sem henni hafði verið gefin til að nota í ferðinni.
OM AH HUM VAJRA GURU PADMA SIDDHI HUM
Hún hjálpar til við að færa okkur samhygð og samhygð fyrir heiminn.
Meginflokkur: Ferðalög | Aukaflokkar: Andleg málefni, Hari Baba | Breytt 6.4.2011 kl. 10:16 | Facebook
Um bloggið
Shamballa MDH
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.