Ferðasaga-Reykjavik-Kumba október 2006

Eftirfarandi ferð var styrkt af ShamballaMDHfoundation.

basicteachers cameroon

 

Eftir 5 ára tölvusamskipti við Tcharbuahbokengo erum við loks á leið til Kamerún. Ýmislegt hefur gerst á þessum árum. M.a. fékk T. Neitun um vegabréfsáritun til Íslands 2004 og ég skil það vel í ljósi reynslu minnar nú. Þessi neitun hafði þó þau áhrif að við tókum ákvörðun um að fara til Kamerún til að kenna shamballa. Árið 2005 fékkst enginn styrkur til þess utan 55 þús krónur frá Landsbankanum sem voru eyrnamerktar FEEDAR&HR. Í ár hinsvegar fengum við styrk frá Shamballasjóðnum upp á 3500 evrur sem nægir fyrir ferð, gistingu og ýmsum kostnaði sem fylgir svona löngu ferðalagi. Því miður höfum við þurft að berjast fyrir að fá þetta “háa” upphæð en gott fólk á við Phyllis, Maurice og Baba hafa staðið með okkur. Í ljósi þess að FEEDAR og HR hefur ekki tekist að fá neina styrki fyrir kostnað á þeirra enda fengum við auka styrk frá Shamballa skólanum upp á 500$ en auk þess styrkti KB banki tækjakaup upp á 35000 krónur og Francine Liard í Kanada útbjó og sendi 30 kennarahandbækur til Parísar þar sem við tókum við þeim. Auk þess sendi hún mér 14000 krónur til að borga fyrir hugsanlega yfirvigt.

Við Elli buðum einnig upp á hálfsdagsferð í Borgarfjörð fyrir þátt. í ráðstefnunni Healing the healer og borgaði hver og einn 5000 krónur sem rann í þetta verkefni að frádregnum útlögðum kostnaði við bílana. Fleira gott fólk lagði einnig lóð á vogarskálarnar. Komum nú að ferðinni sjálfri.

Við flugum með Flugleiðum til Parísar og tókum rútu frá flugvellinum að Gar d´Lyon og þaðan með leigubíl á hótel. Þetta er yndislegt lítið hótel í tólfta hverfi, “Sport Hotel”. Í afgreiðslunni biðu okkar skilaboð um að hringja í Cecile en hún hafi haft samband fyrir nokkrum vikum síðan varðandi kaup á hrifkjörnum. Okkur samdist um að maðurinn hennar hitti okkur kl. 6 á meðan ætlum við að kíkja inn í hrifkjarna verslun sem nefnist Art Stella. Það er möguleiki að eigendurnir taki hrifkjarnana okkar í sölu hjá sér en þeir eru nú þegar með mikið úrval hjá sér. Af þeim hrifkjörnum sem þar eru til sölu nú kölluðu kjarnarnir frá Alaska sérlega á mig og eru þeir hreint magnaðir. Við litum einnig inn í nokkrar lyfjaverslanir í leit að moskítoneti en fundum engin. Þess í stað keypti ég mér forláta náttföt úr bómull.

Alain reyndist vera yndislegur heilari sem vinnur mikið með jörðina og kristalla auk hrifkjarna. Hann hefur druida bakgrunn og áttum við gott spjall saman. Stóri kristallinn minn víbraði sem aldrei fyrr þegar ég rétti honum hann og var það tilfinningaþrungin kærleiksstund. Ég er viss um að þeir hafa tengst í fyrra lífi á einhvern hátt. Alain tjáði okkur að hann myndi væntanlega flytja til Argentínu ásamt konu sinni sem er þaðan og það myndi vera gaman að fá okkur í heimsókn til að kynna hrifkjarnana.

Um nóttina sváfum við í Lee Crock undratækinu þ.e. með álmottuna undir lakinu. Við tókum það rólega og eftir morgunverð tók ég Ella í meðferð enda hafði hann verið mjög stífur í flugvélinni á leið til Parísar. Ég tengdi “krókódíla” við álprófílana sem hann hélt á og notaði svo heilun og cranio. Eftir 45 mínútur meðferð þ.e. þegar + hleðslan fór að hlaða upp frumurnar aftur í annað sinn fann hann fullkomna slökun. Ég fékk svo svipaða meðferð og upplifði það sama og Elli.

Við fórum nú út í göngutúr í Domesnil garðinum en hann er tengdur nýlendutíma frakka og voru upplýsingaskilti um hina ýmsu þætti í nýlendusögunni á dreif um garðinn. Þarna er líka stórt safn sem er skreytt höggmyndum að utan sem tengjast nýlendusögunni. Hreint stórkostlegt. Í garðinum er lítið vatn sem hægt er að róa á og tvær litlar eyjar. Orkan var ljúf, mikið af skokkurum sem hlupu hring eftir hring og hafði ég skemmtan af að skoða hlaupastíl og líkamstjáningu. Fólk var að sjálfsögðu í misgóðu formi en einnig sást oft að of mikið álag var á sumum líkamshlutum. Við nutum veðurblíðunnar og fagurra haustlita en París skartaði sínu fegursta þenna haustmorgun og var gaman að fylgjast með mannlífinu. Fólk td í biðröð fyrir utan bakarí til að kaupa baguette og kökur.

Við fengum okkur að borða á veitingastað á eyju í Domesnil vatni og var hann mjög ljúffengur. Elli fékk sér buff tartar en ég salat. Í byrjun var fámennt á staðnum og orkan ljúf en er líða tók á fjölgaði ört og síðasta hálftímann var orðin mjög “ertandi” orka á staðnum og vorum við fegin að hafa komið svona snemma. Klukkan 3 hittum við Baba á hótelinu ásamt tveimur frönskum vinum hans. Tókum við þau í smá meðferð í undratækinu og fengum svo þær vígslur sem okkur vantaði fyrir ferðina. Það var yndislegt að hitta þennan góða vin og bróður og vonast ég til að hann kíki nú til Íslands á nýju ári, kannski í tengslum við Healing the healer ráðstefnuna. Hver veit. Eftir að Baba fór drifum við okkur að tæma úr annarri ferðatöskunni til að taka með til Genevieve en þangað hafði okkur verið boðið í mat.

Okkar beið 12 kg pakki með prentefni hjá henni. Okkur þótti líklegt að yfirvigtin yrði töluverð. Reyndar hafði ég sleppt öllu aloae vera gelinu heima þar sem töskurnar voru komnar yfir leyfileg mörk. Metróin sem var um 15m frá hótelinu flutti okkur í næsta nágrenni við Genevieve. Hún tók vel á móti okkur en þó fundum við vel allan tímann hversu mikill óróleiki var innra með henni. Ég er farin að halda að Lee Crock tækið auki enn á næmni okkar.

Okkar beið ljúfur kvöldverður og meiriháttar súkkulaðikaka sem var ekki lík neinu sem ég hef áður fengið. Reyndar fékk ég frábæran ábæti fyrr um daginn- nýbökuð súkkulaði kaka með mjúkri fyllingu og mangó sorbet. Við vorum ekki einu gestir Genevieve þetta kvöld heldur voru þarna stödd vinahjón hennar frá Ástralíu sem höfðu ferðast um Frakkland og Spán á hjólum. Eftir þessa notalegu kvöldstund fórum við heim á hótel að umpakka og finna út hvernig við gætum komið þessu öllu til Afríku. Við fengum 5 tíma góðan svefn. Úthvíld og hress og til í hvað sem er. Við komum okkur út að Gar d´Lyon á nýjan leik og biðum í um 3 kortér eftir rútunni til flugvallarins.

Þar fórum við úr allt of snemma svo það tók okkur um hálftíma að ganga yfir að réttum tengigangi og er þangað var komið vorum við stopp í annan hálftíma vegna tösku sem skilin hafði verið eftir. Það er greinilegt að öryggisgæsla er mikil á vellinum. Við höfðum ætlað okkur rúman tíma á vellinum en nú var hann orðinn knappur. Elli var tékkaður sérstaklega bæði í vegabréfaskoðuninni og farangursskoðuninni. Grunsamlegur farþegi. 

Er við stóðum í innritunarröðinni fannst okkur ekki vera margir farþegar að fara til Kamerún og því kom það okkur verulega á óvart er við sáum að vélin okkar var breiðþota full af farþegum af öllum kynþáttum. Það varð um klukkutíma seinkun á brottför þar sem lögreglan fjarlægði unga konu sem sat rétt aftan við okkur í vélinni. Hún vildi alls ekki fara frá borði og endaði það með því að hún var borin af fjórum körlum út þar sem þeir héldu í sitt hvern útlim hennar með höfuðið á undan og andlit niður. Heldur óskemmtilegt. Við sendum kærleika til allra viðkomandi.

Ekki er hægt að segja annað en þjónusta um borð hafi verið frábær og er nú bara að sjá hvað tekur við á jörðu niðri. Afríka Við lentum klukkustund of seint í Douala, hafnarborg Kamerún. Í lendingu var okkur tilkynnt að við þyrftum að afhenda “boarding” passann. En ó! Hann var horfinn. Örvæntingarfull leit fór fram í og við sæti mitt sem bar loks árangur og litla hjartað gat hægt á sér aftur eftir hraðferðina sem það fór á. Flugvöllurinn er lítill, enn minni en Sófíu völlur. Hitastækja og raki mættu okkur er við komin út úr vélinni.

Fyrst fórum við í gegnum skoðun á heilsuvottorði þ.e. bólusetningar og landvistarleyfi og loks vegabréfaskoðun. Síðar tók við bið við töskufæribandið. Sérmerkt aðstoðarfólk kom strax og bauð þjónustu sína sem við afþökkuðum í fyrstu en eftir að yfiröryggisvðrður vallarins var búinn að ræða í bróðerni við okkur og hafði vakið athygli okkar á því að utan veggja stöðvarinnar biðu hrægammar og þjófar sem víluðu einskis að ná smá verðmætum af óreyndum ferðamönnum, þáðum við aðstoð hans og eins af hans mönnum. Við tjáðum honum að við hefðum ekkert tollskylt og kom hann okkur framhjá tollvörðum án vandræða.

Úff ef þeir bara vissu að meirihluti farangurs okkar varð eftir í Kumba. Greiddum við honum 10 evrur fyrir aðstoðina út í leigubíl. Mér heyrðist á Ella að yfirmaðurinn hefði látið vera að láta aðstoðarmann okkar fá peninga svo kunningi okkar greiddi honum einnig. Utan stöðvarinnar var mikil mannþröng, sáum við fljótt 2 menn með shamballa nafn uppi og var þar kominn Tcharbuahbokengo ásamt Samuel. Flýttu þeir sér að koma okkur og farangrinum upp í leigubíl sem síðan hélt af stað á rútustöðina. Voru félagar okkar nýkomnir á völlinn og hafði því seinkunin sem varð vegna hinnar ógæfusömu ungu konu orðið okkur til happs.

Á leið okkar vorum við stoppuð af lögreglu sem kannaði skilríki allra í bílnum. Svo var haldið áfram á rútustöðina. Er þangað kom sáum við allskyns sölufólk og nokkrar mini rútur í misjöfnu ásigkomulagi. T. Hóf að karpa um fargjaldið með leigubílnum en bílstjórinn hafði skyndilega hækkað gjaldið þrefalt vegna hvíta fólksins sem var í för. Eftir nokkurt háreysti fór bílstjórinn í fússi og við tóku samningaviðræður við bílstjóra rútunnar. Við þurftum að greiða fyrir 2 aukasæti fyrir farangurinn en sjálf settumst við beint fyrir aftan bílstjórann með hina troðfullu bakpoka en í þeim voru allar handbækurnar sem við fengum sendar frá Kanada. Við höfðum komist í gegn með þær án þess að greiða yfirvigt. Í upphafi var þokkalegt pláss fyrir okkur í rútunni en eftir því sem tíminn leið fylltist rútan smám saman og plássið þrengdist. Þarna er ekki farið af stað fyrr en búið er að fylla í öll sæti. Á meðan var okkur boðinn allkyns varningur og matur. Við vorum að skrælna úr þurrki en T. Reddaði því með því að kaupa drykki fyrir okkur og smá brauð. Loks var rútan klár til að fara af stað og voru þá orðnir 5 manns sem sátu í röðinni okkar þar sem við venjulegar aðstæður væru aðeins 3. Það varð því æði þröngt um fætur okkar og kropp sem kom fram í miklum náladofa síðar í ferðinni.

Framundan var 4 tíma ferð um holótta vegi í kolniðamyrkri. Bílstjórinn virtist þekkja hverja einustu holu og stein á veginum og keyrði alveg frábærlega. Við vorum hins vegar fegin að hafa ekki drukkið of mikið og geta haldið í okkur uns við kæmum á hótel því ekki voru neinar fínar bensínstöðvar með salerni á leið okkar til Kumba. Aðeins var stoppað einu sinni til að sinna kalli náttúrunnar og var aðstaðan svo til engin. Það er líka algengt að sjá menn stoppa þar sem þeir eru og vökva nátturuna eða götuna með vökva sínum. Konur sáust þó ekki haga sér á sama hátt en eina unga stúlku sáum við setjast rétt fyrir utan hús sitt og pissa þar sem hún var. Þetta er auðvitað hluti af mun stærra vandamáli sem hreinlæti áhrærir í þessu samfélagi.

Vegakerfið er margfalt betra í hinni gömlu frönsku nýlendu heldur en hinni bresku en þær sameinuðust í eitt ríki á 7. áratug síðustu aldar. Helst hefðu menn í SW hluta landsins viljað fá eigið sjálfstæði en fengu aðeins að velja milli þess að verða hluti af Nígeríu, en menn þar á slóðum höfðu vaðið yfir land þeirra um aldir eða verða hluti af austur hluta landsins þ.e. frönsku nýlendunni og var það illskárri kostur. Þetta hefur þó ekki fært þeim neinar framfarir. Á nýlendutímanum litu Bretar á Kamerún sem hluta af Nígeríu nýlendunni og fóru peningar því þar í gegn og enduðu sjaldnast í Kamerún. Frakkar á hinn bóginn litu á sína nýlendu í Kamerún sem hluta af Frakklandi og byggðu upp innra kerfið. Eftir sjálfstæðið hafa ríkisstjórnir landsins haldið uppteknum hætti nýlenduherranna og haldið aftur af fé til SW og NW hlutans en notað féð til uppbyggingar í austurhluta eða frönskumælandi hluta landsins. Forsetar landsins sem hafa verið 2 frá upphafi hafa aldrei stigið fæti í SW hluta landsins í opinberum erindagjörðum. Íbúarnir eru langþreyttir enda vegakerfið gjörónýtt, eiginlega bara hægt að tala um vegleysu þar sem skiptast á drullupyttir, djúpir skurðir og holur. Þessir vegir eru reyndar slíkir að hér á landi væri þeim lokað yfir rigningartímann. Þetta myndi á hinn bóginn leiða til þess að engar samgöngur væru milli þorpa eða bæja helming ársins.

Járnbrautarsamgöngur eru jafn slakar en ein lest gengur milli bæja þe. Hún fer fram og tilbaka einu sinni á dag eða svo en þó ekki um helgar. Hér eru það því skellinöðrur og tveir jafnskjótir sem bjarga fólki milli staða. Verst af öllu er að mikinn auð er að fá frá SW hlutanum en þar er olían, málmarnir og frjósemi jarðar með gnægð matar ef vel er að staðið. Það var komið myrkur er við lögðum af stað frá Douala og því sáum við aðeins útlínur trjáa nema í smábæjum sat fólk utan við hús sín við olíulampa. Þessir smábæir eða þorp virtust vera byggð við þjóðveginn og var oftast moldar- eða leirflag fyrir framan flesta skúrana. Í fæstum þorpum virtist vera rafmagn. Við komum til Kumba kl 10 um kvöldið og höfðum við verið á ferðinni síðan 6 um morguninn.

Það var léttir að sjá að salernið á hótelinu okkar var snyrtilegt þó svo engin væri klósett setan. En ÆÆÆ –kakkalakki hafði fundið leið inn á bað. Ekkert gaman vona bara að hann láti vera að heimsækja svefnaðstöðuna. Annars var herbergið heldur stórt svo næsta morgun fengum við minna herbergi. Alveg óþarfi að dreifa úr sér, frekar að spara peningana. Annars komumst við að því að salernið virkaði ekki í nýja herberginu svo við fengum enn annað herbergi, versta var að þar var ekkert heitt vatn svo það var ekki gott að fara í sturtu. Því fluttum við í fjórða herbergið en þar var gjörsamlega vonlaust að sofa vegna hávaða í gamla loftkælingar tækinu svo enn fluttum við og þar við sat. Samt vorum við ekki kát með flugnanetið þar sem nóg var af götum á því og því hægur vandi fyrir flugur að komast inn í herbergið enda fengum við að finna fyrir því. Við hófum kennsluna eftir ágætan svefn, þurftum að vísu að hreinsa orkuna þarna.

T. Kom allt of seint að sækja okkur, reyndar kom hann í þrígang að leita okkar en datt ekki í hug að fara upp á herbergi en þar biðum við. Eftir þetta biðum við alltaf fyrir utan hótelið og bíða þurftum við oft og einatt. Hér er fólk ekki að flýta sér nema ef vera skyldi þegar kvöld eða eftirmiðdagsrigningin skellur á með offorsi og fólk þarf að leita skjóls. Allt fer á bólakaf á örskömmum tíma. Oft kom það fyrir að við biðum í 1-11/2 tíma eftir að vera sótt þó svo aðeins væri 5 mínútna göngutúr að skólanum þar sem kennslan fór fram. Við vorum hinsvegar með mjög þungan farangur í hvert sinn og ómögulegt að ganga með hann í sólinni á drulluvegunum.

Leigubílarnir hér eru gulir og gamlir og hér er fáum umferðareglum fylgt. Aðalfarartækið er þó skellinaðra og höfum við einungis séð 2 með hjálma en hér er lítið hugsað um umferðaröryggi eða annað öryggi. Farið með leigubíl kostar um 200 franka eða 30 krónur en fer fljótt upp í 1000 franka ef bílstjóranum sýnist svo. Hins vegar veit ég ekki hversu mikið kostar að sitja aftan á skellinöðrunni en það er lang algengasti ferðamátinn hér. Það voru milli 20-30 manns sem biðu okkar á fyrsta kennsludegi. Þar af voru 3-4 þorpshöfðingjar, sumir með langa reynslu og háan aldur, aðrir voru yngri og óreyndari, jafnvel bóndasonur sem hafði hafist til virðingar.

Öldungurinn var heldu ósáttur við að kona skyldi leiða friðarbænirnar þar sem Biblían segði að það ættu eingöngu karlmenn að gera í hópi karla, hó hó hó. Við útskýrðum okkar samvinnu. Hann kom ekki aftur. Enn annar höfðingi stoppaði aðeins stutt við en sá fjórði varð vildarvinur okkar og hægri hönd meðan á dvöl okkar stóð. Nú á síðustu dögum heimsóknar okkar hér er hann sá eini sem við treystum fyllilega. Þetta er Chief Eseme Elis Eseme, náttúrulegur heilari með mikla framagirnd en þó lítillátur.

Við höfum borðað hádegis eða miðdegisverð með honum flesta daga. Hann hefur mikið að gera enda rekur hann skógrækt, öryggismiðstöð, veitingastað og er pólitíkus á landsvísu. Hann er óskaplega vinsæll meðal fólksins. Hvar sem við komum er honum heilsað og hann heilsar þeim á báða bóga. Af þeim sem komu á námskeiðin er hann sá sem hefur gerst víðreistastur. Hann hefur að sögn búið og starfað í nokkrum Evrópulöndum og er með dvalarleyfi í Bretlandi til hausts 2007. Hér er þó hans heimili og hér vill hann láta gott af sér leiða. Hann er því okkar besti valkostur er kemur að því að velja mann héðan fyrir shamballasjóðinn.

Flestir eða allir hinir eiga sér leynda eða ljósa drauma um að shamballa skírteini hjálpi þeim að fá ferðaheimild til annarra landa-hins fyrirheitna lands og fara ekki heim aftur. Þó vitum við líka að shamballa heimspekin hefur þegar breytt lífi þeirra. Einn nemandi vitnaði um stöðuhækkun og óvænta gjöf frá yfirmanni sínum, aðrir um almenna betri líðan og nýja lífssýn. Talandi um tímaskyn fólks og trúverðugleika.

Í dag er síðasti dagurinn okkar í Kumba. Eldsnemma í morgun komu þeir fyrstu af nemendum okkur en við höfðum hugsað okkar að setjast inn á Internet kaffið og skrifa heim sem við og gerðum. Til stóð að afhenda tækin í dag kl 10 en svo leið og beið og Eseme sást hvergi svo við frestuðum því til morgundagsins sem var reyndar upphaflega planið. Við Elli sátum og spiluðum á spil niðri í lobbýi þar sem herbergið okkar hafði verið sprautað með eitri vegna kakkalakka sem hafði gert sig líklegan til að fá sér lúr inní náttfötunum mínum sem lágu á rúminu í gærkvöld. Um klukkan 2-hálf þrjú birtist svo vinur okkar með lögfræðipappíra til undirskriftar sem gerðu hann að gæslumanni gjafar okkar fyrir hönd shamballa klúbbsins. Hann tjáði okkur að börnin sín væru óþolinmóð að hitta okkur. Við vorum alveg klár að fara en hann sagðist þurfa að skjótast í 10 mínútur og kæmi svo að sækja okkur. Þessar 10 mínútur eru nú orðnar 5 klst. Við erum komin upp á herbergi, erum búin að fá okkur kríu og skiljum lítið í því hvað tefur vin okkar nema ef vera skyldi mikið vatnsveður sem skall á kl ½ 5 en það var samt 2 tímum eftir að Eseme skyldi við okkur síðast. Við drifum okkar á endanum niður að borða, ekkert spennandi mat þó en eitthvað í magann samt. Hver haldið þið að láti þá sjá sig annar en Eseme?

Hann læddist inn á veitingastaðinn, kindarlegur mjög og sagðist vera með börnin í bílnum og konuna. Hann hafði verið sendur í erindagjörð í eitt þorpið vegna höfðingjafundar sem halda á í næstu viku og varð innlyksa í rigningunni. Ekkert við því að gera. Nú voru börnin 4 komin hingað að hitta okkur, hvíta manninn. Þau eru 1, 3, 5 og 8 ára gömul, tvær stelpur og tveir strákar. Við gáfum þeim liti, litabók og jólasveinaspil við mikinn fögnuð. Við heyrðum það daginn eftir að þau hefðu hlaupið um þorpið og kallað upp hvað hvítu mennirnir hefðu gefið þeim. Voða gaman.

Þau hjónin komu með nýjan Kappa (kjól/mussu) handa mér. Mér finnst hann mun fínni en sá sem FEEDAR gaf mér en það skrifum við bara á íslensku því ekki vil ég móðga neinn enda er þessi fatagjöf merki um að við höfum verið velkomin af innfæddum. Við erum farin að láta okkur dreyma um íslenskan mat fyrir utan að hitta fjölskylduna aftur en sú þrá er löngu komin.

Sjaldan á ferðum okkar hefur mér leiðst eins og í Kumba eftir að námskeiðunum lauk enda lítið gert nema bíða og slappa af og spila á spil. Annars las ég bókina Man no be God fyrir Ella þá daga sem við vorum í Kumba og lærðum við margt af henni um fólkið í Kamerún og þá sjúkdóma sem þá geta hrjáð en höfundurinn starfaði sem læknir í NW hluta landsins í 30 ár milli þess sem hann starfaði í Kanada.

Maturinn á hótelinu er heldur fábrotinn og við löngu búin að fá leið á honum. Morgunmaturinn samanstendur af hvítu brauði með sultu, kaffi og ávöxtum, oftast papaya eða ananas. Annars hefur hungur svo sem ekki hrjáð okkur. Vatnsdrykkjan hefur verið stöðug og næg fita á kroppnum til að brenna en ég sé hafragrautinn í hyllingum og Ella hlakkar til að fá gómsætt lambakjöt eða jafnvel hamborgara.

Grænmeti er líka nokkuð sem ég hlakka til að borða aftur án þess að þurfa að hafa áhyggjur af heilnæmi þess. Við lögðum okkur mikið af fiski til munns í ferðinni og smökkuðum aðeins á plantein (bananaætt) grillað eða soðið. Hins vegar létum við egg, mjólk, kjöt og grænmeti eiga sig. Elli tapaði slatta af kílóum sem ekki eru komin aftur nú viku síðar meðan ég missti jú líka kíló en meltingin fór í algjört rugl eftir að ég kom heim og er enn í rugli. Vonandi leysist það fljótt og vel.

Sunnudagsmorguninn rann upp. Dagur afhendingar. Við Elli vorum búin að ræða vandlega um hvað þyrfti að árétta við nemendur okkar. T. Var kominn frá Kenýa þar sem hann hafði sótt fund á vegum SÞ. Hann hafði reyndar hringt í gemsan eldsnemma um morguninn eða kl 6 en ég hafði verið svo forsjál að setja hann á hljótt enda grunaði mig að ég fengi næturupphringingu sem ég kærði mig ekki um enda langur ferðadagur framundan. Það voru um 10-12 manns sem mættu til að taka á móti tækjunum og kveðja okkur. Ég hóf athöfnina á sálarmöntrunni en síðan lýsti ég aðdraganda komu okkar. Hvaða peningar hefðu verið sendir í vor til að undirbúa komu okkar og hvað skírteinin veittu hverjum einstaklingi. Þ.e. heiður fyrir eigin verðleika en voru ekki flugmiðar til fyrirheitna landsins eins og hafði verið látið í veðri vaka.

Þó gæti hver og einn látið drauma sína um betra líf rætast fyrir sakir eigin verðleika. Ég var ákveðin og skýr í máli og höfðu nemendurnir á orði eftir athöfnina að madam væri hörð og skýr. Nú var bara eftir að komast út á flugvöll og fljúga heim. En enn tók við bið, og meiri bið. Alla aðra daga hafði ég verið sallaróleg yfir þessari bið en í dag vildi ég bara vera viss um að komast í flugið og bið var ekki vinsæl hjá mér eða Ella. Við náðum ekki sambandi við Eseme sem ætlaði að fylgja okkur, hvar var maðurinn? Á endanum hringdum við í Mukete sem kom við annan mann og sátu þeir með okkur uns við heyrðum í Eseme. Hann hafði farið að redda leigubíl sem gæti ekið okkur til vallarins í stað þess að fara í yfirfulla rútu af fólki aftur. Til þess þurfti bíllinn að hafa leyfi undirritað af eiganda hans og þar sem í dag var sunnudagur var eigandinn heima hjá sér í þorpinu. Allt tók þetta sinn tíma en á endanum komumst við af stað.

Nú var bara að vona innilega að ekki rigndi svo við sætum ekki föst í drullupytti einhversstaðar milli Kumba og Douala. Þetta gekk nú allt eftir, ekki kom dropi úr lofti en okkur stóð svo sannarlega ekki á sama þegar við sáum hversu verulega slæmir vegirnir voru. Þó var okkur sagt að þeir væru nú bara ágætir en vegirnir norðan við Kumba væru mikið verri. Ferð okkar var á enda, við höfðum útskrifað 17 frábæra kennara sem eru allir færir um að koma shamballa heimspekinni áfram og ætla að hittast vikulega til að hugleiða saman, læra saman og spjalla. Við kenndum samtals 8 daga í Kumba. Allan tímann nýttum við tækin góðu sem við höfðum meðferðis svo að hinir nýju shamballa kennarar fengju notið góðs af og einnig til að þeir lærðu að nota þau ásamt kærleiksorku Uppsprettunnar sem þeir voru nú betur tengdir við en áður.

Ég er sannfærð um að þessi ferð okkar er aðeins sú fyrsta af mörgum ferðum til þessa geysistóra meginlands þar sem fegurðin er mikil og fjölbreytileikinn með en mannlíf er litað af vesöld, fátækt og hitastækju en inn á milli má líka sjá að fólk vill hafa fínt í kringum sig og ræktar garðinn sinn á margan hátt. Kærar þakkir til allra sem gerðu ferð okkar mögulega bæði fjárhagslega og á annan hátt.

Ekki síst þökkum við börnum okkar fjórum, foreldrum og systkinum fyrir allan þeirra kærleika og stuðning. Lilja Petra Ásgeirsdóttir og Erlendur Magnús Magnússon


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Shamballa MDH

Höfundur

Lilja Petra Ásgeirsdóttir
Lilja Petra Ásgeirsdóttir
Ég er Shamballa MDH meistari og hef kennt shamballa kærleiks og sjálfseflingar námskeið á Íslandi, Evrópu og Afríku frá 1998 ásamt manni mínum, Erlendi Magnússyni. Ég er einnig heildrænn heilsuráðgjafi og höfuðbeina og spjaldhryggsjafnari.
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • hari das baba white
  • n719607009 1110518 633
  • basicteachers cameroon
  • baba5
  • baba7

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (15.5.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 35
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 23
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband